Hafnaraðstaða

Hafnir Reykjaneshafnar eru 5 talsins og þjóna misjöfnum hlutverkum.


Hafnahöfn

Lýsing á aðstæðum


Hafnarsvæði í Höfnum er 3,95 ha. að stærð. Hafnarkanturinn er 180 metrar að lengd að vestanverðu með 115 metra viðlegukanti að austanverðu innan við bryggjuhausinn. Bryggjuhausinn er 12 metrar að breidd og 22 metrar að lengd. Þekjan er 7 metra breið meðfram viðlegukantinum.

Grunnur hafnarkantsins er grjótgarður sem þekjan er steypt yfir og skjólveggur steyptur á útbrún vestanverður. Mesta dýpi er 2 metrar á stórstraumsfjöru innan við bryggjuhausinn. Grjótvörn er vestan við hafnarkantinn til varnar ágangi sjávar.


Saga hafnarinnar


Töluverð útgerð var frá Höfnum á Reykjanesi á árum áður þótt hafnaraðstæður væru erfiðar. Milli róðra voru bátar annað hvort dregnir á land eða lagðir við festar í vari, en í vondum veðrum og brimi voru bátar þó að jafnaði í hættu þótt svo væri. Löndun var yfirleitt erfið og fyrirhafnasöm þó veður væri gott, hvað þá ef veður voru slæm. Fyrstu hafnarframkvæmdir í Höfnum áttu sér stað á árunum upp úr 1930 með byggingu bátabryggju neðan við kauptúnið. Var framkvæmdin á vegum einstaklinga eins og að jafnan á þessum árum en seinna meir tók sveitarfélagið yfir rekstur hennar.

Bryggjan bætti mjög allar aðstæður þó betur mætti gera en árið 1944 var bryggjan betrumbætt með því að lengja hana fram í stórstraumsfjöruborð. Þetta þótti ekki fullnægjandi og duga skammt. Bygging núverandi hafnaraðstöðu og viðlegukants í Höfnum má rekja til árana 1951-1959 og var viðlegukanturinn staðsettur 200 metrum fyrir austan bryggjuna.

Dýpi við viðlegukant er lítið og erfitt um vik að dýpka þar sem botninn er klapparbotn og dýpkun því ekki möguleg nema með klapparsprengingum. Betrumbætur hafa verið litlar sem engar frá 1959 enda þörfin takmörkuð vegna minnkandi umsvifa eftir 1960. Í dag er engin starfsemi á Hafnarhöfn.


Heimild: Hafnir á Reykjanesi;2003

Helguvíkurhöfn

Lýsing á aðstæðum


Hafnarsvæðið í Helguvík er 190,6 ha. að stærð. Höfnin samanstendur af 100 metra Olíubryggju í austurhluta hafnarinnar og 150 metra viðlegukanti í norðurhluta hennar, Norðurbakka.

Grjótvarnargarður sem skýlir Helguvíkurhöfn er hluti af olíubryggjunni. Olíubryggjan er byggð upp af fjórum kerum sem sitja á uppfylltum grjótpúða á sjávarbotni en við hana er 13,5 metra dýpi. Norðurbakki er stálþilskantur með lágmarksdýpi 10 metra við viðlegukant. Lágmarksdýpi innan hafnarsvæðisins er 10 metrar við Norðurbakka en mesta dýpi innan hafnar er um 16 metrar.


Saga hafnarinnar


Uppbygging Helguvíkurhafnar hófst í framhald af samkomulagi milli utanríkisráðuneytisins f.h. Atlandshafsbandalagins (NATO og Keflavíkurbæjar frá 21. apríl 1983 um land og aðstöðu til uppbyggingar hafnaraðstöðu í Helguvík í tengslum við eldsneytisflutninga fyrir herstöðina og flugvöllinn á Miðnesheiði. Atlantshafsbandalagið fjármagnaði byggingu grjótvarnargarðs og annarra hafnarmannvirkja en þar var um að ræða fjögur steinsteypt ker sem mynduðu viðlegukant fyrir skipakomur.


Framkvæmdir stóðu yfir frá 1987 til 1989 en fyrsta skipakoman var 29. ágúst 1989. Í samningnum var ákvæði um að bæjaryfirvöld mættu byggja hafnarmannvirki innan grjótvarnargarðsins fyrir almennan hafnarekstur. Höfnin Keflavík-Njarðvík hóf síðan framkvæmdir við 150 metra viðlegukant á árinu 1994 sem lauk árið 1997. Nýting viðlegukantsins hófst meðan á framkvæmdum stóð og var fyrstu loðnu landað þar í febrúar 1995.

Móttakandi var flokkunarstöð Helguvíkurmjöls hf. sem þá var nýrisin á hafnarsvæðinu í Helguvík. Í ágúst árið 2008 hófust dýpkunarframkvæmdir í Helguvíkurhöfn þegar dýpkað var innan hafnarsvæðis allt upp í 14,5 metra miðað við fyrirhugaða framtíðaruppbyggingu á svæðinu. Lauk þeirri framkvæmd í árslok 2009. Dýpkunarefnið, alls um 300.000 m3, var notað í uppbyggingu á nýjum 150 metra grjótvarnagarði við höfnina sem jók öryggi skipa við innsiglingu og innan hafnarsvæðis til muna.

Keflavíkurhöfn

Lýsing á aðstæðum


Hafnarsvæðið í Keflavík er 1,975 ha. að stærð. Aðalhafnargarðurinn er með viðlegu fyrir skip allt að 165 metra að lengd með með dýpi frá 7 til 13 metrum við kant. Einnig eru fjórir aðrir smærri viðlegukantar fyrir báta á hafnarsvæðinu og er vesturbryggjan þeirra stærst.


Saga hafnarinnar


Í upphafi síðustu aldar var engin höfn til staðar í Keflavík en smærri bryggjur voru í eigu einkaaðila. Bryggjurnar voru notaðar til löndunar en milli róðra lágu bátar í viðlegu úti fyrir landi. Þörf fyrir hafnaraðstöðu var brýn og ýmsar hugmyndir uppi um uppbyggingu hafnar og hafskipabryggju í Keflavíkinni, innanvert við Vatnsnesið og í Grófinni. Um 1930 voru þrjár bryggjur í einkaeigu til staðar við ströndina, þ.e. Miðbryggja, Básbryggja og Grófarbryggja.

Þessar bryggjur sinntu brýnustu þörfum en þeim fylgdi engin hafnaraðstaða. Þörfin fyrir hafnaraðstöðu var því enn til staðar vorið 1930 þegar Óskar Halldórsson athafnamaður stóð fyrir stofnun hlutafélagsins Hafskipabryggja Keflavíkur sem síðan reisti hafskipabryggju á Vatnsnesi. Með henni gjörbreyttist öll aðstaða til hins betra fyrir útgerðina á staðnum og samfélagið allt. Nokkrum árum síðar stóð fyrrnefndur Óskar fyrir gerð hafnargarðs með bátabryggjum innan við hafskipabryggjuna.


Fram til ársins 1941 voru hafnarmannvirkin í einkaeigu en um það leyti keypti Keflavíkurhreppur mannvirkin af þáverandi eigendum. Í framhaldi af kaupunum voru mannvirkin endurbætt og bætt við bryggjum auk þess sem hafnargarðurinn var lengdur. Í framhaldi af stofnun landshafnarinnar Landshöfnin í Keflavík og Njarðvík urðu þessi hafnarmannvirki hluti hennar.


Heimild: Saga Keflavíkur 1920-1949;1999)

Njarðvíkurhöfn

Lýsing á aðstæðum


Hafnarsvæðið í Njarðvík er 10,93 ha. að stærð. Njarðvíkurhöfn samanstendur af tveimur hafnargörðum, norður- og suðurgarði, sem eru að mestu leyti úr steinsteyptum kerum sem steypt voru við höfnina. Grjótvarnargarður er utan við norðurgarðinn og stálþil á austurenda hans með 7,5 til 9 m dýpi við 120 langan viðlegukant.


Saga hafnarinnar


Útgerð og sjósókn var töluverð frá Njarðvík á árum áður. Bryggjur og aðstaða var á hendi einstakra útgerðarmanna en fyrir lá þörfin um bryggjur sem væru til almenningsþarfa. Eftir að vélbátar komu til sögunnar varð þörfin meiri en áður og í byrjun 20. aldar fóru fram ýmsar rannsóknir í tengslum við slíka uppbyggingu. Þörfin jókst eftir því sem leið á öldina og upp úr 1930 lá fyrir að bráð nauðsynlegt væri á því að hafskipabryggja yrði byggð á svæðinu.

Tafir urðu á allri framkvæmd þar sem uppbygging hafnar í Njarðvík skaraðist að hluta til við uppbyggingu hafnaraðstöðu í Keflavík. Um 1940 voru ráðagerðir um uppbyggingu stórrar hafnar í Njarðvík en vegna ágreinings um slíka uppbyggingu við Keflvíkinga varð ekkert af framkvæmdinni. Endanleg lausn á hafnarmálum í Njarðvík leystist ekki fyrr en með lögum frá Alþingi sem samþykkt voru 1946 um Landshöfn í Keflavíkur- og Njarðvíkurhreppum.


Heimild: Saga Njarðvíkur;1996)

Grófin

Lýsing á aðstæðum


Hafnarsvæðið í Gróf er 4,52 ha að stærð og með stækkunarmöguleika upp í 6,97 ha. Smábátahöfnin rúmar 82 smábáta á þremur vel útbúnum flotbryggjum með rafmagnstengingum ásamt olíuafgreiðslubryggju, upptökubraut og löndunarkrana. Gott skjól er innan hafnarinnar sem liggur vel að miðbæjarsvæði bæjarins.



Saga hafnarinnar


Í lok árs 1990 var tekin endanleg ákvörðun um uppbyggingu smábátahafnar út frá fyrirliggjandi skýrslu um staðarval hennar. Staðarvalið stóð um að smábátahöfnin yrði staðsett vestan við Skipasmíðastöð Njarðvíkur eða í Gróf í Keflavík.


Smábátasjómenn mæltu með staðarvalinu í Grófinni, þar sem styttra var á fiskimiðin, en töldu nálægð við Skipasmíðastöð Njarðvíkur ókost vegna þeirrar starfsemi sem þar væri til staðar. Einnig settu hafnaryfirvöld skilyrði fyrir stækkunarmöguleikum smábátahafnarinnar og er núverandi höfn fyrri áfangi af tveimur samkvæmt deiliskipulagi bæjarins. Niðurstaðan var sú að ákveðið var að byggja smábátahöfn í Gróf en þar hafði áður verið starfsemi Dráttarbrautar Keflavíkur hf.


Framkvæmdir hófust í enda ársins 1991 og var endanlega lokið 1995. Höfnin var þó vígð formlega 27. nóvember 1992 er Halldór Blöndal samgönguráðherra klippti á borða í hafnarmynninu um borð í lóðsbátnum Auðunni.

Share by: