Reykjaneshöfn 420 3220

Ársyfirlit Reykjaneshafnar 2016

Helguvík

Reykjaneshöfn

Reykjaneshöfn tók til starfa í núverandi mynd 5. desember 2002 og samstendur hafnaraðstaðan af smábáthöfninni í Gróf, Hafnarhöfn, Helguvíkurhöfn, Keflavíkurhöfn og Njarðvíkurhöfn. Athafnasvæði hafnaraðstöðu er 30.415 m2 að stærð. Reykjaneshöfn er B-hluta fyrirtæki innan samstæðu Reykjanesbæjar.

Almenn hafnarstarfsemi

Skipakomur og flutningar

Aukning hefur verið í komu fraktskipa til Reykjaneshafnar árið 2017 miðað við síðustu ár. Árið 2014 höfðu 44 skip viðkomu, 2015 voru þau 49 og urðu 52 árið 2016. Með tilkomu aukinnar atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæðinu í Helguvík má búast við að árlegur fjöldi skip muni aukast á næstu árum.

Sameinað sílikon hf. (USi) hóf framleiðslu í lok ársins 2016 en samkvæmt þeirra áætlunum muna að meðaltali eitt skip á viku fara um Helguvíkurhöfn þegar starfsemi þeirra verður komin í eðlilegt horf. Sömu viðmið munu vera upp þegar Thorsil ehf hefur starfsemi sína í Helguvík.

Um Helguvíkurhöfn fer allur innflutningur á flugvélaeldsneyti sem notað er hér á landi. Aukning á flugumferð um Keflavíkurflugvöll hefur því bein áhrif á starfsemi Reykjaneshafnar og að meðaltali kemur eitt olíuskip á mánuði til Helguvíkurhafnar með eldsneyti því tengdu.

Í öðrum innflutningi um hafnir Reykjaneshafnar munar mest um annars vegar innflutning á sementi í tengslum við starfsemi Aalaborg Portland Ísland ehf. í Helguvík og hins vegar innflutning á möl í tengslum við viðhaldsframkvæmdir á Keflavíkurflugvelli.

Útflutningur frá höfnum Reykjaneshafnar hefur verið frekar takmarkaður undanfarin ár, en þar er helst um að tala mjöl og lýsi í tengslum við starfsemi Síldarvinnslunnar hf. í Helguvík. Þó ber þess að geta að Eimskipafélag Íslands hf. hóf reglulegar siglingar milli Helguvíkurhafnar og Evrópu á hálfsmánaðar fresti í lok síðast árs. Upphaf þessara siglinga má rekja til samninga milli Eimskipafélagsins og Sameinaðs Sílikons varðandi flutninga á afurðum þess síðarnefnda. Þessar reglubundnu siglingar skapa tækifæri fyrir annan inn- og útflutning um Helguvíkurhöfn.

Vörumagn það sem fer um hafnir Reykjaneshafnar hefur aukist mikið undanfarin ár í samræmi við aukna skipakomu. Árið 2014 fóru 287 þúsund tonn um hafnir Reykjaneshafnar, árið 2015 voru þetta  317 þúsund tonn og árið 2016 fóru 463 þúsund tonn. Þetta er aukning um 62% á tveimur árum

Landanir og afli

Fjöldi landana voru árið 2014 voru 1.276, 1.065 árið 2015 og 1.567 árið 2016. Þó sveiflur séu í fjölda landanna milli ára þá er ákveðin festa í því aflamagni sem berst að landi, þó aðallega í botnfiski. Afli í uppsjávarfiski er mun breytilegri, en þó hefur sveiflum milli tegunda innan hvers árs oft jafnað út sveiflur innan viðkomandi tegundar.

Undanfarin ár hafa loðnuafurðir verið stærsti hluti þess uppsjávarfisks sem landað hefur verið í höfnum Reykjaneshafnar. Á árinu 2016 gaf loðnað sig hins vegar ekki og var ekki landað nema 3.650 tonnum á þeirri vertíð, en til hliðsjónar var landað á árin 2015 31.460 tonnum. Þarna varð umtalsverð minnkun milli ára. Einnig var töluverð minnkun í lönduðum síldarafurðum árið 2016, en þá var landað 4.925 tonnum í stað 9.690 tonnum árið 2015. Jákvæð þróun var í löndun á makríl árið 2016 miðað við undanfarin ár, en landaður afli af makríl árið 2016 var 8.800 tonn en árið 2015 nam landaður afli af makríl 5.000 tonnum.

Landaður botnfiskafli í höfnum Reykjaneshafnar hefur verið mjög svipaður frá ári til árs undanfarin ár. Árið 2016 var landað 4.688 tonnum miðað við að árið 2015 var landað 4.852 tonnum. Stærsti hluti þessa afla eru þorskafurðir eða 3.700 tonn. Næst þar á eftir eru Gullkarfi en af honum var landað 370 tonnum, ufsi en af honum varð landað 167 tonnum og ýsa en af henni var landað 150 tonnum.

Af öðrum lönduðum afla í höfnum Reykjaneshafnar ber mest á Sæbjúgu, en af þeirri tegund var landað um 400 tonnum á árinu 2016.

Skipakomur til Reykjaneshafnar

Vörumagn um hafnir Reykjaneshafnar

Fjöldi landana og aflamagn 2016

  • Fjöldi landana
  • Magn í þús.

Makrílafurðir á mánuði 2016 - viðmið 2014 og 2015

  • Júlí
  • Ágúst
  • Sept

Önnur starsemi

Gámaskip í HelguvíkDráttarbátur hafnarinnar kom að 45 skipakomum til Reykjaneshafnar á árinu 2016 miða við 34 skipakomum árið 2015. Önnur verkefni dráttarbátsins tengjast m.a. komu skipa á ytri höfn Reykjaneshafnar og aðstoð við skip sem tengjast Skipasmíðastöðinni í Njarðvík.

Íssala til viðskiptavina Reykjaneshafnar árið 2016 var tæplega 40% meiri en á árinu 2015. Ástæður þessarar aukningar má að mestu leiti rekja til þeirrar löndunaraukninga sem varð í makríl milli áranna 2016 og 2015.

Framkvæmdir og viðhald

Töluvert álag fylgir þeim mannvirkjum, svæðum og tækjum sem tilheyra höfnum Reykjaneshafnar. Öryggismál hafa þar forgang svo sem afmörkun vinnusvæða og endurnýjun lýsingar. Helstu viðhaldsþættir ársins 2016 voru eftirfarandi:

Áhöld og tæki: Reykjaneshöfn á fjögur ökutæki, sendibíl, lítinn pallbíl, vörubíl og dráttarvél. Þessi tæki eru í stöðugri notkun og þurfa því alltaf aðhlynningu við. 2016 var bremsukerfi dráttarvélarinnar endurnýjað.

Dráttarbátur: Mb Auðunn er dráttarbátur Reykjaneshafnar. Árið 2016 var aðstaða hafnsögumann sem flytja þarf út í skip betrumbætt sem stuðlaði að öryggi þeirra þegar farið var milli skipa úti á sjó.

Smábátahöfnin í Gróf: Stöðugt þarf að huga að festingum á flotbryggjunum í Grófinni. Ástæður þess eru m.a. að í Grófinni liggja saman ferskt vatn og saltur sjór, en sú samsetning eykur tæringu á keðjunum sem halda flotbryggjunum á sínum stað. 2016 var hluti af þessum keðjum endurnýjaðar. Einnig var lýsing á svæðinu yfirfarin og endurnýjuð að hluta og hafnarkantar málaðir.

Helguvíkurhöfn: Viðlegukantar Helguvíkurhafnar eru annarsvegar Norðurgarður og hins vegar Olíubryggja. Á Norðurgarði voru gerðar úrbætur á fríholtum til að auka viðleguöryggi skipa. Á Olíubryggju voru festarpollar þrifnir upp og betrumbættir. Einnig var lýsing á svæðinu endurnýjuð að hluta og hafnakantar málaðir. Nýtt gámasvæðið var byggt upp í tengslum við aukna þjónustuþörf í Helguvík.

Keflavíkurhöfn: Í Keflavíkurhöfn er löndunaraðstaða smærri báta sem landa hjá Reykjaneshöfn. Til að auka og auðvelda þjónustu við þá báta var löndunarkrani færður til á hafnarsvæðinu. Einnig var lýsing á svæðinu endurnýjuð og hafnarkantar málaðir.

Njarðvíkurhöfn: Landtengingar á svæðinu voru endurnýjaðar að hluta, lýsing á hafnarsvæði betrumbætt og hafnarkantar málaðir.

Ísframleiðsla: Tæki og áhöld fyrir ísframleiðslu voru yfirfarin og endurbætt.

Lóðir og lendur

Helguvík

Heildarfermetrafjöldi lóða á Helguvíkursvæðinu, almennra iðnaðarlóða og lóða undir hafnsækna starfsemi, er 1.377 þúsund m2. Búið er að úthluta 26 lóðum sem nema 522 þúsund m2 og óúthlutaðar lóðir eru 67 sem nema 855 þúsund m2 . Af nýjum aðilum á svæðinu með úthlutaðar lóðir er USi með 108 þúsund m2 og er að ljúka uppbygging fyrsta áfanga af fjórum í sinni uppbyggingu. Annar aðili er Thorsil með 159 þúsund m2 lóð, en uppbygging þar er ekki hafin.

Af gatnakerfinu eru 60% fullfrágengnar götur með bundnu slitlagi, 34% gatnakerfisins er tilbúið undir jöfnunarlag og bundið slitlag en 5% er á algeru byrjunarstigi. Hluti gatnakerfisins er komið í viðhaldsþörf og þarfnast yfirlagningar á slitlagi, s.s. Stakksbraut. Af götulýsingu er komið um 57% af heildar gatnalýsingu svæðisins.

Lokið er við lagningu fráveitu sem nær til 67% þeirra lagna sem fyrirhugaðar eru á svæðinu sjálfu, en auk þess að klára nýlagna innan svæðis þarf nýlögn frá svæðinu inn í fráveitukerfi bæjarins í framtíðinni í stað þeirrar lausnar sem til staðar er í dag. Hafnarsvæðið sjálft liggur mun lægra en fráveitukerfi svæðisins og takmarkar það getu kerfisins til að þjónusta hafnarsvæðið nema með sértækum aðgerðum, en Fráveita Reykjanesbæjar er með verkefni á sinni könnu.

Eftirspurnir um lóðir á iðnaðarsvæðinu í Helguvík voru nokkrar á árinu 2016, en tvær lóðarumsóknir eru nú í vinnslu hjá höfninni.

Hólamið

Fjöldi lóða á Hólamiðum er 22 og um 68 þúsund m2 af heildarstærð, þar ef er búið að úthluta 6 lóðum sem nema 20 þúsund m2 að stærð. Gatnakerfið er tilbúið undir jöfnunarlag og bundið slitlag, en engin gatnalýsing er til staðar. Fráveita innan iðnaðarsvæðisins er að fullu lögð, en eftir er að tengja kerfið við fráveitukerfi bæjarins.

Fjármál

Reykjaneshöfn hefur átt í viðræðum við kröfuhafa sína um lausn á þeirri fjárhagsstöðu sem höfnin er í. Þessar viðræður hafa farið fram samhliða viðræðum Reykjanesbæjar við sína kröfuhafa um lausn á skuldavanda bæjarins. Þessum viðræðum er ekki lokið er vonast er til þess að verði á fyrrihluta árs 2017. Meðan þessum viðræðum er ekki lokið gætir óvissu í fjármálum hafnarinnar og getu hennar til þess að standa við skuldbindingar sínar og þá uppbyggingu sem þarf á komandi árum.

Starfsmenn og stjórn

 

Starfsmenn

Halldór K Hermannsson
hafnarstjóri

Gísli H Sverrisson
skrifstofustjóri

Aðalsteinn Björnsson
hafnarstarfsmaður

Gylfi Bergmann
hafnarstarfsmaður

Jóhannes Jóhannsson
hafnsögumaður

Jón Pétursson
hafnsögumaður

Karl Ó Einarsson
hafnsögumaður

 

Stjórn

Davíð P Viðarsson
formaður

Einar Þ Magnússon

Hanna B Kornráðsdóttir

Hjörtur M Guðbjartsson

Kristján Jóhannsson